Sögulegt mann- og bæjatal

Markmið verkefnisins er að búa til miðlægan þekkingarbrunn með tímasettum upplýsingum um bæja- og staðanöfn annars vegar, og mannanöfn hins vegar, svo langt sem heimildir ná, og er ætlað að nýtast sem rannsóknainnviðir með miðlun gagnanna til rannsakenda sem vilja nýta þau. Sá hluti verkefnisins sem aðgengilegur er hér byggir á gögnum úr 16 manntölum frá tímabilinu 1703–1920, tvennum jarðabókum frá 1847 og 1861, og tvennum bæjatölum sem tekin voru saman af Póststjórninni og gefin út á árunum 1885 og 1915. Nefndir bæir og önnur hýbýli hafa verið tengd saman milli heimilda og fjöldi einstaklinga sem talinn er í manntölunum einnig.

Á þessum vef gefst kostur á að skoða gögnin, leita í þeim og fletta. Flettingin er á forsendum stjórnsýslulegrar skiptingar landsins í sýslur, hreppa og kaupstaði á þeim tíma sem heimildirnar taka til, auk þess sem flestar heimildirnar staðsetja bæi í sóknum eða prestaköllum. Stærstur hluti bæja hefur verið hnitsettur og í því gefst kostur á að sýna staðsetningu þeirra á korti, bæði við leit að bæjum og við flettingu hreppa og sókna.

Við flettingu birtist stika neðan við haus vefsins þar sem velja má milli þeirra heimilda sem nýttar hafa verið, og þegar heimild er valin á síðan sem skoðuð er að endurspegla gögn heimildarinnar. Ef „Allt“ er valið eru öll gögn um viðkomandi stak birt. Á síðum bæja er birtur listi yfir íbúa samkvæmt manntölum. Ef einstaklingur í manntali er valinn eru öll gögn um hann í viðkomandi manntali birt, og ef hann hefur verið tengdur við sjálfan sig í öðrum manntölum eru upplýsingar úr þeim einnig birtar, ásamt korti sem sýnir búsetusögu.

Í gagnagátt má nálgast gögn grunnsins og vista á csv-sniði, sem hentar vel til notkunar í töflureiknum og gagnagrunnum. Gagnagáttin býður uppflettingu eftir heimildum þar sem þrengja má uppflettinguna með vali á sýslum og hreppum þeirra og sóknum eins og þörf krefur, áður en vistað er.

Stór hluti bæja í bæjatalinu var hnitsettur samkvæmt bæjatali Landsbókasafns og Örnefnasafni Árnastofnunar á Nafnið.is, auk þess sem staðfangaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur nýst drjúgt til þess að hnitsetja bæi sem enn eru í byggð. Gögn um mannvirkjaleifar úr Örnefnasjá Náttúrufræðistofnunar hafa verið nýtt til þess að hnitsetja fjölmörg eyðibýli og nefnd hús í þéttbýli. Vera kann að í einhverjum tilfellum sé bær hnitsettur samkvæmt síðari tíma staðsetningu, en í flestum tilfellum ætti hnit þá að falla innan sömu jarðar og vera nokkuð nærri eldri staðsetningu.

Enn er fjöldi hýbýla sem nefnd eru í heimildunum óhnitsett, og á það sérstaklega við um hús í þéttbýli, verbúðir við sjávarsíðuna og önnur hjábýli og afbýli sem mörg hver virðast hafa verið skammlíf, eða kunna mögulega að hafa verið nefnd mismunandi nöfnum milli heimilda. Áfram verður leitast við að bæta skráningu þessara hýbýla eins og kostur er, en sennilega mun töluverður hluti þeirra aldrei verða staðsettur eða skilgreindur nánar.

Um heimildirnar

Við samsetningu gagnagrunnsins reyndist rit Bjarkar Ingimundardóttur Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi algert grundvallargagn og eru allar upplýsingar um sóknir, prestaköll og hreppaskipan sóttar þaðan, auk grundvallarupplýsinga um sýsluskipan. Gögn Bjarkar voru notuð til þess að búa til ramma sem stýrði allri úrvinnslu og frágangi gagna úr heimildunum, og gerði kleift að sætta heimildirnar saman því þó að heimildirnar séu einsleitar eru þær ekki eins. Manntölin nota almennt sóknir sem útgangspunkt skráningar bæja nema hvað manntölin 1703 og 1920 nota hreppa. Jarðabók Jóns Johnsen 1847 telur bæi í hreppum en nefnir einnig sóknir sem þeir tilheyra, en Ný jarðabók 1861 styðst eingöngu við hreppa, rétt eins og Bæjatöl Póststjórnarinnar. Einhver dæmi eru um það í manntölum að átt sé við prestakall þó að sókn sé nefnd, og þar komu gögn Bjarkar sannarlega til bjargar.

Ekki eru allar heimildirnar heilar eða heildstæðar. Manntalið 1729 nær einungis til Rangárvalla-, Árnes- og Hnappadalssýslna, og Manntalið 1870 er skert að því leyti að úr því hafa týnst gögn um Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslur. Í manntalið 1816, sem er í raun ekki eiginlegt manntal heldur samsett úr ýmsum skýrslum, vantar töluvert af gögnum, til dæmis Sauðárhrepp í Skagafirði, Neshrepp á Snæfellsnesi, Gufudalshrepp í Barðastrandarsýslu, Snæfjallahrepp og Reykjafjarðarhrepp í Ísafjarðarsýslu, og Kaldrananess- og Hrófbergshreppa í Strandasýslu.

Heimildirnar eru nokkuð missaga um skiptingu landsins í sýslur, og sjaldnast styðjast þær að fullu við opinbera sýsluskipan. Þannig eru sýslur sem höfðu verið sameinaðar iðullega taldar hvor um sig, og á það við um Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mýra- og Hnappadalssýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Í nánast öllum tilfellum eru þær taldar upp hver og ein, en einhverjar heimildir nefna að um sameinaða sýslu sé að ræða þó að hreppar þeirra og bæir séu talin undir eldra sýsluheiti. Einnig eru dæmi um hið andstæða, að sýslur sem hafa verið aðskildar stjórnsýslueiningar um aldaskeið eru taldar sem ein, eins og í Manntali 1801 og Nýrri jarðabók 1861 sem telja Skaftafellssýslu sem eina einingu, frekar en að skipta henni í Austur og Vestur, og Manntal 1801 telur Múlasýslu einnig án skiptingar í Norður og Suður.

Í birtingu hér á vefnum hefur verið reynt að sigla milli skers og báru. Almennt eru gögn birt eins og þau eru í heimildum en í einhverjum tilfellum eru gögn vensluð milli heimilda. Á það fyrst og fremst við um skráningu bæja í þeim manntölum sem skrá bæi einungis í sóknir en þar er upplýsingum um skráningu þeirra í hreppa aukið við úr nálægum heimildum. Svipuð leið er farin við birtingu sýsluskipunar og staðsetningu hreppa í sýslum, en í slíkum tilfellum eru gögn heimildanna römmuð inn í framsetningu sem tekur mið af þeim stjórnsýslueiningum sem sannarlega voru við lýði á tíma heimildanna. Þannig eru hreppar Múlasýslu í manntali 1801 flokkaðir í Norður- og Suður-Múlasýslur, en það haft innan sviga. Lengra er ekki gengið í að túlka heimildirnar og þeim er hvorki breytt né þær leiðréttar.

Leitast hefur verið við að halda rithætti nafna eins og hann er í heimildunum, í því ástandi sem þær voru þegar samsetning þessa gagnasafns hófst. Því er flest innan gagnagrunnsins með fleira en eitt skráð nafn eða heiti, oftast með rithætti heimildar og með samræmdu nútímasniði. Þetta hefur einfaldað alla samtengingu og samkeyrslu gagnanna, og nýtist einnig í leitarmöguleikum, þar sem leitað er jöfnum höndum í stöðluðum nöfnum og nafnmyndum úr heimildum.

Á flestum síðum má nálgast heimildaskrá um það sem birt er hverju sinni, auk upplýsinga um hvernig heppilegt er að vísa til viðkomandi síðu sem heimildar, ef svo ber undir. Ef vísa á til gagnasafnsins í heild má gera það með þessum hætti:

APA:

“Sögulegt mann- og bæjatal.” Gagnasafn. Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, útg. 1.0 janúar 2025. smb.mshl.is.

MLA:

Sögulegt mann- og bæjatal, 1.0, Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, janúar 2025, smb.mshl.is.

Chicago:

“Sögulegt mann- og bæjatal.” Gagnasafn. Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, útg. 1.0 janúar 2025. smb.mshl.is.

Harvard:

‘Sögulegt mann- og bæjatal’ 1.0 (2025). Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista. smb.mshl.is.

Hér má skoða tölfræði um hrágögn þeirra heimilda sem unnið hefur verið með.

Pétur Húni

Heimildir

Björk Ingimundardóttir. Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi. Reykjavík: Þjóðskjalasafn Íslands. 2013.

Jón Johnsen. Jarðatal á Íslandi 1847, með brauðalýsíngum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu. Kaupmannahöfn: 1847.

Vilhjálmur H. Finsen. Íslenzkt bæjatal er einkum má nota sem póstsendingabók. Kaupmannahöfn: Póststjórnin 1885.

Manntal á Íslandi árið 1703 tekið að tilhlutan Árna Magnússonar og Páls Vídalín ásamt manntali 1729 í þremur sýslum. Reykjavík: Hagstofa Íslands 1924–1947.  (Texti manntalsins er eftir prentaðri útgáfu Hagstofu Íslands sem kom út á árunum 1924-1947.)

Manntal á Íslandi árið 1703 tekið að tilhlutan Árna Magnússonar og Páls Vídalín ásamt manntali 1729 í þremur sýslum. Reykjavík: Hagstofa Íslands 1924–1947.  (Texti manntalsins er eftir prentaðri útgáfu Hagstofu Íslands sem kom út á árunum 1924-1947.)

Ný jarðabók fyrir Ísland 1861, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861. Kaupmannahöfn: Jarðabókaútgáfan 1861.

Manntal á Íslandi 1801, I–III. Akureyri og Reykjavík: Ættfræðifélagið 1979.  (Texti manntalsins er eftir prentaðri útgáfu Ættfræðifélagsins sem kom út á árunum 1978-1980.)

Bæjatal á Íslandi 1915. Reykjavík: Póststjórnin 1915.

Manntal á Íslandi 1816, I–VI. Akureyri og Reykjavík: Ættfræðifélagið 1947–1974.  (Texti manntalsins er eftir prentaðri útgáfu Ættfræðifélagsins sem kom út á árunum 1947-1974.)


Óprentaðar heimildir

Manntal 1835  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1840: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1840  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal á Íslandi 1845, I–III  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1850: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1850  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1855: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1855  (Texti manntalsins er stafréttur eftir frumriti. Táknið ? þýðir að frumrit var illlæsilegt eða ólæsilegt.)

Manntal 1860: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1860  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1870: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1870  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti. Manntalsskýrslur úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum frá árinu 1870 eru glataðar.)

Manntal 1880: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1880  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1890: ÞÍ. Manntal á Íslandi 1890  (Texti manntalsins er stafréttur eftir vélrituðu afriti.)

Manntal 1901  (Texti manntalsins er stafréttur eftir frumriti. Táknið ? þýðir að frumrit var illlæsilegt eða ólæsilegt.)

Manntal 1910  (Texti manntalsins er stafréttur eftir frumriti. Táknið ? þýðir að frumrit var illlæsilegt eða ólæsilegt.)

Manntal 1920  (Texti manntalsins er stafréttur eftir frumriti. Táknið ? þýðir að frumrit var illlæsilegt eða ólæsilegt.)